sixnineone

... user unknown ...

3.5.05

Býflugnafræðarinn

Þá er komið að þeim árstíma að býflugurnar fara á stjá. Undirrituðum hefur alltaf þótt leiðinlegt að horfa upp á þá fordóma sem blessaðar býflugurnar þurfa að þola.

Algengt er að fólk rugli saman býflugum og geitungum, og haldi að þetta séu einn og sami hluturinn. Einnig er svo til fólk sem heldur að litlu randaflugurnar (ræfilslegu litlu greyin sem standa stundum í stað í loftinu) geti stungið sig eða séu hættulegar, einfaldlega af því þær eru svona semi-röndóttar.... vitleysa.

Áður en lengra er haldið er kannski rétt að taka fram að undirritaður hefur í gegnum árin í fávisku sinni verið að þylja að einhverju leiti ósannindi um býflugur, en það mun sumsé leiðréttast hér.
Þær flugur sem við köllum í daglegu tali býflugur eru þær sem má sjá á myndinni hérna til vinstri og nefnast á ensku Bumble Bees. Þær eru saklausir hunangssafnarar sem engin ástæða er til að hræðast. Þær æsast ekki upp einsog geitungar og eru friðsælar skepnur í eðli sér, rétt einsog kýr.

Býflugnabúið inniheldur þrjár gerðir flugna sem eru
Drottningar, kvenvinnudýr og Karlvinnudýr. Drottningarnar eru stærstar og eru þær sem við sjáum hlunkast um á vorin í leit að góðu bústæði.

Kvenvinnudýrin eru næst í röðinni, aðeins minni en drottningar, og fjölmennari (að því gefnu að orðhlutinn ‘-menn’ eigi við um flugur). Karldýrin eru svo minnst og fjölmennust.

Fyrri hluta sumars eru einu flugurnar sem við sjáum drottningar og kvendýr, en svo þegar flugunum skyndilega fjölgar síðsumars þá eru það karldýrin sem klakin eru úr eggjum og farin á stjá.

Það sem flestir hafa áhyggjur af er að vera stunginn af býflugu. Rétt er þá að árétta eftirfarandi:
  • Aðeins kvenflugur (drottningar og kvenvinnudýr) geta stungið. Karldýrin, þau langlanglang fjölmennustu eru hreinlega broddlaus.

  • Býflugur eru friðsemisskepnur og kvendýrin sem geta stungið gera það aðeins í neyð. Býfluga stingur aldrei að fyrra bragði. Hún getur lent á handlegg þínum og skoðað þig í smá stund, en hún er bara að athuga hvort þú sért nokkuð blóm.. þegar hún sannfærist þá flýgur hún á brott. Rétt er að taka fram að ég hef í gegnum árin haldið því fram að býflugur sem stinga missi broddinn og deyji, en það er víst ekki rétt hjá mér.
Hræðumst ekki býflugur, njótum þeirra í umhverfi okkar. Það getur verið mjög skemmtilegt og fróðlegt að fylgjast með þessum vinnusömu og göfuglyndu skepnum. Við fáum víst ekki mörg tækifæri í dýraríkinu til að fylgjast með svona flóknum og skemmtilegum samfélögum.

Að lokum hvet ég ykkur til að hvetja þá sem þið þekkið og þjást af býfluguótta að lesa þetta yfir, og kynna sér málið betur.

Heimildir: http://hercules.users.netlink.co.uk/Bee.html

7.4.05

Af fótbolta

Mér finnst fótbolti skemmtilegur, í sjálfu sér.

 

Mér finnst gaman að spila hann, og mér finnst gaman að horfa á góðan leik öðru hverju.

 

Leikir íslenskra félagsliða finnst mér hinsvegar óáhugaverðir. Tuttugu strákar sem vinna á daginn sem leikmyndasmiðir að berjast á móti rokinu og slyddunni, hálf-kalnir á leggjunum, spólandi í freðnum drullupyttum til að reyna að vinna leiki sem svo sanna ekkert.

 

Á hliðarlínunni standa svo vinir og kunningjar, plús einhverjar einmana sálir sem greinilega höfðu ekki “kapasítet” til að finna sér einhvern betri stað til að vera á, og æpa hvatningarorð einsog “Áfram Siggi!” og “Pota þetta strákar!”

 

En það merkilegasta í þessu öllu saman er að heyra fólk tala saman um fótbolta, framvindu og úrslit leikja, einsog þetta séu einhverjir hlutir sem í raun og veru skipta máli, í stað þess að vera bara léttvæg dægradvöl.

 

...en, það er sjálfsagt ágætt að fólk hafi ekki stærri vandamál.

30.3.05

Lausn á umferðarvandanum

Ég er með hugmynd að lausn á umferðarmálum á Íslandi, ja eða allavega á höfuðborgarsvæðinu. Það eru varla margir staðir úti á landi með fjölreina akbrautir og annað í þeim dúr.

1. Mjókkum akbrautir

Já, þið heyrðuð í mér. Mjókkum akbrautir. Íslendingar kunna hvort eð er ekkert að keyra á götum með fleiri en eina akrein í hvora akstursstefnu. Svína hægri, vinstri. Gefa ekki stefnuljós, og furðanlega margir halda að vinstri akreinin sé til þess gerð að dóla í rólegheitunum við hliðina á bílunum á þeirri hægri. Þessi vandamál verða úr sögunni ef við leggjum aukaakreinar af.

2. Burt með hringtorgin, inn með umferðarljósin

Þeir tilheyra blessunarlega fámennum hópi, umferðarlúðarnir sem ekki kunna á umferðarljós, en það er hinsvegar tómlegt og einmanalegt á félagsfundum okkar elítunnar sem kunnum að aka um hringtorg.
Hvernig stendur á því að þegar fólk ekur út af tvíakreina hringtorgi út á breiða akbraut að það virðist halda að það megi bara velja sér akrein? Það er óþolandi að aka á ytri hring og vera að fara útaf hringtorgi út á hægri akrein, þegar einhver sveitalubbi á rúnkjeppa svínar fyrir mann, af innri akrein – yfir á hægri akrein.

Ekki það. Ég hef svosum gaman að því að liggja á flautunni í góðar 15 sekúndur.

3. Leggjum niður gangbrautir

Gagnslausasta fyrirbæri umferðarmenningarinnar. Veitir sömu fölsku öryggiskennd og björgunarvesti í flugvélum. Það er varla til akandi kjaftur sem stoppar við gangbraut, og oftar en ekki hafa ökumenn flautað á mig þar sem ég hef dirfst að trufla þá með því að ganga út á gangbraut. Eina fólkið sem fær menn til að stoppa við gangbrautir eru óléttir skátar á áttræðisaldri með barnavagn og bekk af leikskólakrökkum í eftirdragi.

Þar hafið þið það. Heildarlausn á umferðarvandanum... eða alltént umferðarpirringnum.

22.3.05

Og enginn segir neitt

Ég var að spá í þetta með páskaeggin.
 
Ég held að flestir geti sætt sig á að páskar, einsog við ættum að þekkja þá, séu kristin hátíð lituð af siðum frjósemishátíða fyrri tíma.
 
Páskaeggið og páskaunginn ofan á því eru klárlega tákn frjósemishátíðanna. Ekki beint kristin tákn, en svosum langt frá því and-kristin, þannig að jafnvel þeir allra "heilögustu" ættu að geta sætt sig við þau.
 
Ég er ekkert smámunasaur þegar kemur að þessum hátíðum... kæmist til að mynda vel af án jólatrés á jólum... en finnst engum öfugsnúið að troða fyrst Strumpafígúrum, og svo núna í seinni tíð einhverjum Púkagrýlum ofan á páskaeggin?
 
Mér finnst einhvernveginn Púkar og upprisa Krists ekki beint eitthvað sem maður setur í sama réttinn :)

Frábær færsla!

Ég fékk alveg frábæra hugmynd að bloggfærslu, en er því miður of þreyttur og kraftlítill til að koma henni í orð. Lesendur verða bara að taka viljann fyrir verkið.

16.3.05

barnaland.is

Í dag, og jafnvel undanfarna daga - er ekki viss var að vakna úr móki, hefur plebbavefurinn barnaland.is verið mikið í umræðunni vegna þess að einhver konukind notaði þann miðil til að spúa út úr sér ærumeiðingum í blindum ofsa misskilinnar réttlætisfullnægingar.
 
Landinn er sjokkeraður, sár og svekktur.
 
Ég er aftur á móti ekkert sérlega sjokkeraður, þannig. Það eru þarna aðrir hlutir sem fara meira fyrir brjóstið á mér en þetta. Ég er löngu orðinn ónæmur fyrir því að lesa ærumeiðingar, slúður, og heimskuleg ummæli og láta þau sem vind um eyru þjóta, ég meina - fólk ætti nú að vera í ágætis þjálfun, því eitthvað selst jú DV. 
 
Athygli mín var annars nýlega vakin á þessarri síðu og það eru aðrir hlutir þar sem sjokkera mig meira en þetta mál. Nú á ég ekki börn og einhverjir eiga væntanlega eftir að ranghvolfa augunum og segja sem svo "Þú veist ekki hvað þú ert að tala um - þetta breytist þegar þú eignast börn sjálfur"..... Prump. Ég held að það sé kominn tími til að sett séu lög þess efnis að nú sé komið nóg. Barnafólk megi ekki lengur nota þessa afsökun sem einhvern lokahnikk í "rökræður" þar sem börn eru að einhverjum hluta viðfangsefnið. Allskonar hálfvitar (er ég að skjóta mig í fótinn?) mega hafa álit á þjóðmálunum án þess að þingmenn segi "Þú veist ekki hvað þú ert að tala um - þetta breytist þegar þú ferð á þing".
 
Það sem fer mest fyrir brjóstið á mér eru allar hinar síðurnar þarna. Til að friða nú aðeins þá sem eru ósammála ofangreindri tillögu minni að lagasetningu og gefa þeim smá tíma til að þurrka froðuna úr munnvikunum þá er rétt að ég taki fram að ég skilji vel að fólk vilji dásama og upphefja börn sín, það er jú ekki nema eðlilegt..., en þessar hrikalega illa skrifuðu, ósmekklegu síður gera blessuðum sakleysingjunum síður en svo hátt undir höfði, að mínu mati.
 
Ég hef nú svosum ekki skoðað neinn meginþorra þessarra síðna, er ekki í rannsóknarblaðamennskugírnum, og það er hvort eð er í tísku að skrifa órökstuddar ásakanir þessa dagana, en af þeim síðum sem ég hef skoðað þá hef ég tekið eftir neðangreindum þáttum sem fara meira fyrir brjóstið á mér en meintar ærumeiðingar:
 
1. Grunnskólar landsins ættu að standa að endurmennturnarkúrsum í einfaldri stafsetningu og réttritun, og bjóða verðandi foreldrum námskeið í þeim fræðum.
 
2. "Ég heiti Doddi og er þriggja mánaða..." Að skrifa fyrir hönd barnsins í fyrstu persónu er ósmekklegt og í sama flokki sýrópsvæmni og þegar fólk talar um dýrin sín sem börn: "Á pabbi að fara með þig út að ganga!?"
 
3. Pastellitir, Michelangelískir englar, hvolpar, kettlingar, og annað myndrænt efni í svipuðum dúr hefur svosum fyrir löngu fest sig í sessi sem "barnakrúttlegt", en það sem fæstir skilja er að svona efni er vandmeðfarið þar sem það getur auðveldlega farið yfir strikið og valdið meltingartruflunum hjá lesandanum. Einhver þarf að kenna fólki að gæta hófsemi og smekkvísi í uppsetningum þessarra vefsíðna.
 
4. Í fjórða og síðasta lagi... hversvegna setur fólk upp opnar vefsíður með öllum upplýsingum um börnin sín? Upplýsingum sem það myndi aldrei birta um sig sjálft? Upplýsingum sem aðeins nákomnir hafa einhvern áhuga á... ja og svo auðvitað ókunnugir með óeðlilegar kenndir...
 

13.3.05

24/7 my ass... 28/6 er málið

Of lítill tími á dag? Of lítill svefn?
þetta hérna er lausnin: http://www.dbeat.com/28

10.3.05

Þættir af klæðskiptingum og smekkleysu

Undirritaður lét sig að sjálfsögðu ekki vanta á uppistand Eddie Izzards sem fram fór í plebbalega kjallaranum á Hótel Íslandi síðastliðið kvöld.
 
Sjóvið byrjaði nánast á slaginu níu, húsið opnaði átta, en ég beið í biðröð fyrir utan frá klukkan sex, þvílíkar voru aðfarirnar.
 
Ég hef nú svosum kannski ekki efni á að amast, þar sem nokkrir vina minna fengu að smeygja sér í röðina hjá okkur, en það fór mikið fyrir brjóstið á mér hvað röðin virtist lengjast mikið eftir því sem á leið.... fyrir framan mig.
 
Eddie stóð svo sannarlega undir væntingum, sem er ekkert sjálfgefið þar sem þær væntingar hafa verið byggðar upp á ca. tíu ára tímabili og stigmagnaðar af reglubundnum rítualískum upprifjunum á nánast öllu hans upptekna efni. Hann kom með mikið af nýju efni í bland við gamalt og gott, sem þó var allt með ferskum keim. Kappinn var - nærstöddum til mikillar furðu - klæddur venjulegum karlmannsfötum. Einhverjir vilja meina að hann hafi þarna aðeins svikist um með því að sleppa kvenmannsfötunum, en ég hef aðra kenningu:
 
Hann er einfaldlega svo mikill klæðskiptingur að hann tók tvo fasa, þar sem flestir láta sér nægja einn. Hann var einskonar hreiðraður transvestite: (Izzard * transvestite) * transvestite.
 
Mínus og mínus gera plús, og allt það.
 
Sýningin var sumsé í heild sinni snilld. Lokin skyggðu þó aðeins á ánægju mína þegar landar mínir sýndu svo klárlega að við erum ennþá torfbæjafólk inni við beinið. Einhverjir ræpandi nerðir þurftu að stökkva upp á svið og veitast að kappanum í spenningi sínum, með faðmlögum og ótilheyrandi væntumþykjumerkjum, sem við "eðlilega" fólkið geymum fyrir ættingja og nána vini. Við sem úti í sal sátum gátum ljóslega séð að Izzard sjálfum þótti aðeins of langt gengið.
 
Upphitararnir stóðu sig.... misjafnlega. Þorsteinn Guðmundsson var góður, nokkuð klúr, en fjári fyndinn. Að Pétur Jóhann Sigfússon hinsvegar hafi einhverntímann verið valinn fyndnasti maður landsins finnst mér bara segja meira til um að lítil samkeppni hafi verið til staðar á þeim tíma en hans hæfileika til að skemmta áhorfendum.